Ólafsdalur

Ólafsdalur við Gilsfjörð er meðal merkustu menningarminjastaða á Vesturlandi og við Breiðafjörð. Þar stofnaði Torfi Bjarnason fyrsta búnaðarskóla á Íslandi árið 1880 og var hann rekinn til 1907. Þar stunduðu 154 skólapiltar nám og komu þeir af öllu landinu. Myndarlegt skólahús frá 1896 stendur í Ólafsdal og er opið gestum á sumrin með sýningum, leiðsögn o.fl. Minjar um margar aðrar byggingar er á staðnum (smiðja, vatnshús, fjós, fjárhús, hesthús, tóvinnuhús...). Í Ólafsdal eru einnig jarðræktarminjar sem eru mjög merkilegar á landsvísu (beðasléttur, hleðslur og vantsmiðlunarmannvirki). Í Ólafsdal er myndarlegur minnisvarði af Torfa og Guðlaugu konu hans eftir hinn þekkta myndhöggvara Ríkharð Jónsson (1888-1977). Ólafsdalsfélagið vinnur nú að endurreisn staðarins. Sjá nánar

Fréttir

Ólafsdalur, perla sem allir þurfa að heimsækja

Ólafsdalur er merkur sögu - og minjastaður við sunnanverðan Gilsfjörð, um 6 km frá veginum yfir Gilsfjarðarbrúna. Þar var fyrsti búnaðarskóli Íslands stofnaður af frumkvöðlinum Torfa Bjarnasyni árið 1880, fyrir 135 árum. Auk þess er nú 100 ártíð Torfa (d. 1915).

Í Ólafsdal verður opið alla daga í sumar kl. 12:00-17:00 fram til 16. ágúst. Umsjónarmenn verða hjónin Elfa Stefánsdóttir tómstundafræðingur og Haraldur Baldursson tæknifræðingur. Sýningar eru þar um sögu Ólafsdalsskólans, konurnar í Ólafsdal o.fl., en auk þess er skólahúsið sjálft frá 1896 fallegt og skoðunarvert. Í sumar verður þar boðið upp á kaffi, rjómavöfflur og ís frá rjómabúinu á Erpsstöðum. Einnig geta gestir fræðst um lífræna rækun grænmetis í Ólafsdal og keypt það á staðnum. Fræðslustígur er í Ólafsdal og góðar gönguleiðir í fallegum umhverfi. Staðurinn er því ein af þessum perlum á Íslandi sem allir þurfa að heimsækja.

Ólafsdalshátíð verður að þessu sinni haldin laugardaginn 8. ágúst. Verður dagskráin fjölbreytt og fjölskylduvæn að vanda; tónlistaratriði, skemmtun fyrir börnin, áhugaverð erindi, vandaður handverksmarkaður og veitingar. Þá verður lífrænt vottað Ólafsdalsgrænmeti til sölu og glæsilegt Ólafsdalshappdrætti.

Heimasíðan er nú komin í gagnið á ný

Nánari upplýsingar og fréttir um starfið í Ólafsdal sumarið 2014 munu birtast á næstunni. Fylgist einnig með facebook-síðu Ólafsdalsfélagsins, https://www.facebook.com/Olafsdalur. Tekið er á móti gestum alla daga fram til 10. ágúst á milli kl. 12.00 og 17.00, allir innilega velkomnir. Auk þess að skoða skólahúsið sjálft, jarðræktarminjar og fallega náttúruna er þar hægt að skoða sýningu um fyrsta landbúnaðarskólann á Íslandi (1880-1907) og sýningu um nám og störf kvenna í Ólafsdal. Myndlistasýningin Dalir og hólar - LITUR er þar að auki á efri hæð hússins. Aðgangseyrir er 600 kr. er frítt fyrir meðlimi Ólafsdalsfélagsins og börn undir 12 ára aldri.